Nýorðin ólétt og túrverkir!!

04.02.2015

Sæl ég er nýbúin að fá að vita að ég er ólétt og mikil hamingja hér á bæ en ég er með endalausa "túrverki". Það getur verið óþægilegt að pissa, snúa mér og standa upp. Er þetta eðlilegt?

 

Heil og sæl og til hamingju!! Það eru rosalega miklar breytingar að gerast inni í þér og því ekkert skrýtið þó að þú finnir aðeins fyrir því. Það er að vísu mjög mismunandi hvað konur finna mikið strax í byrjun, sumar finna engar breytingar á sér og aðrar eru eins og þú og vita mjög vel af þessu. Það er lítið sem hægt er að gera  til að breyta þessu nema að hugsa vel um þig, borða hollan mat, sofa nóg og taka fólínsýru. Það er líka gott að reyna leiða hugann ekki of mikið að óléttunni og einkennum hennar  því að það er vel þekkt að ef að fólk fókuserar of mikið á ákveðna hluti þá magnast þeir. Ég veit að það er hægara sagt en gert!!! En varðandi það að það sé óþægilegt að pissa þá ráðlegg ég þér að láta rannsaka þvagið á heilsugæslunni og útiloka þvagfærasýkingu. Það gæti líka útskýrt einkenni þín. Gangi þér vel.

Bestu kveðjur
Áslaug V.
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur
4.feb.2015