Spurt og svarað

16. janúar 2015

Óánægð með ljósmóður

Sæl. Ég komst að því í síðustu viku að ég er ólétt að fyrsta barni. Talið frá fyrstu degi síðustu blæðinga er ég komin tæpar 6 vikur á leið. Ég fór á heilsugæslu í síðustu viku og komst í (síma)samband við ljósmóður þar. Okkar símtal var hinsvegar alls ekki ánægjulegt fyrir mig. Þar sem þetta er allt nýtt fyrir mér var ég með nokkrar (hugsanlega algengar) spurningar en hún tók ekki vel á móti þessum spurningum. Mér leið eins og hún vildi bara flýta þessu símtali, og talaði við mig eins og ég ætti nú þegar að vera búin að lesa mér til um allt þetta. Mér leið eins og ég væri vara á færibandi hjá henni, sem hún þurfti að flýta sér að skanna, ef má orða það þannig.  Mjög óþægileg tilfinning, sérstaklega þar sem ég finn fyrir frekar mikilli hræðslu og kvíða gagnvart þessu sem koma skal. Mig langaði til að athuga hvort það sé algengt, og "í lagi" að hringja og biðja um að fá tíma hjá annarri ljósmóður. Mig langar mjög mikið að komast í samband við ljósmóðir sem er tilbúin að tala við mig um hræðsluna og getur veitt ráðgjöf, og einnig bent mér á  námskeið. Af þessu símtali að dæma, þá er sú sem ég talaði við ekki rétta manneskjan. Einnig langar mig til þess að spyrja hversu algengt það sé að vera með verki, eða "sting". Hjá mér er það mest yfir daginn, og alls ekki það mikið að ég þurfi að stoppa mig í því sem ég er að gera, en samt það mikið að ég tek eftir því. Takk!


Komdu sæl og blessuð. Það var leiðinlegt að þú skulir hafa orðið fyrir þessari upplifun. Þú spyrð hvort að það sé algengt að konur vilji skipta um ljósmóður. Það er ekki algengt en það kemur fyrir. Það er eðlilegt því að fólk á misvel saman. Það er í fullkomnu lagi að biðja um tíma hjá annarri ljósmóður. Stundum er samt bara ein ljósmóðir á litlum heilsugæslustöðvum og þá er auðvitað ekkert val. Ef að þú getur ekki fengið tíma hjá annarri mundi ég ráðleggja þér þegar þú hittir þessa ljósmóður að segja henni frá þinni upplifun af símtalinu.
Þú spyrð líka um verki/sting, það er frekar algengt í upphafi meðgöngu og ef að engin blæðing fylgir og þetta eru ekki stöðugir verkir eins og túrverkir  þá þarftu ekki að hafa áhyggjur af þessu.
 
Gangi þér vel og bestu kveðjur
Áslaug Valsdóttir
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur
16. jan. 2015
Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.