Of lágur blóðþrýstingur á fyrsta þriðjungi

16.09.2012
Sælar og takk fyrir frábæran vef ;)
Mig langar að spyrja um of lágan blóðþrýsting á meðgöngu. Þannig er að ég er ný orðin ólétt af mínu öðru barni. Viku áður en ég átti að byrja á blæðingum fór ég að finna fyrir svima svo ég fór að taka járntöflur sem ég átti því ég á það til að falla í járni. Eftir viku töku var ég ekkert skárri og komst að því að ég væri ólétt. Ég hef af og til tekið járnið (Duroferon) eftir það en er ekkert skárri af svimanum svo ég lét mæla hjá mér blóðþrýstinginn sem var ekki nema 90/60 núna rétt í þessu (samt búin að vera á ferðinni og borðaði saltkjöt í gærkvöldi). Ég fór að leita að fleiri einkennum af láþrýsting og komst að því að ég er með fleiri einkenni eins og stöku hjartsláttaóreglu, þung yfir höfði og svo sviminn sem nánast því er orðinn standslaus, ekki samt það mikill að ég fái yfirliðatilfinningu. Ég var lág í þrýsting á síðustu meðgöngu en aldrei svona lág og man ekki eftir þessum svima þá. Er reyndar alltaf frekar lág í þrýsting en þetta er það lægsta sem ég hef farið. Er þetta eðlilegt? er eitthvað sem ég get gert til að hækka þrýstinginn annað en að éta glás af salti og lakkrís því hvorugt er sniðugt fyrir mig. Fæ svakalegan bjúg af of miklu salti og lakkrís finnst mér vondur (nema súkkulaðihúðaður). Ég er léttari en ég var á síðustu meðgöngu og borða almennt hollara nú en þá (samt BMI 27). Ég reyki ekki og drekk ekki. Borða allan almennan mat og drekk slatta af vatni.
Með bestu kveðju, Karen
Sæl Karen og til hamingju með þungunina.
Blóðþrýstingur lækkar hjá flestum barnshafandi konum á fyrri helmingi meðgöngu vegna æðavíkkandi áhrifa. Þú þarft að fá ítarlega skoðun hjá þinni ljósmóður í meðgönguvernd, þar sem er tekin blóðprufa, járnbirgðir mældar og einnig B12 magn í blóði. Ef þú ert með járnskort er besta meðferðin að fá járngjöf í æð.
Drekktu vel af vökva til að auka vökvamagnið í líkamanum, hafðu mataræðið fjölbreytt, mikið af járnríku og c- vítamínríku grænmeti og ávöxtum og umfram allt vertu gagnrýnin á það sem þú neytir.

Gangi þér vel,
Margrét Unnur Sigtryggsdóttir
Ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
16. september 2012