Of mikið legvatn

16.08.2004

Halló og takk fyrir fróðlegan vef.

Mig langar að vita hvað eðlilegt að legvatn sé mikið. Ég er með mikið vatn og sagt að reikna með 3-4 lítrum -  er það mikið fyrir ofan meðallag? Er gengin 41viku.  Getur vatnið tafið fyrir að eðlileg fæðing fari af stað? Þ.e. að legið geti ekki dregist nægilega saman til að framkalla sterka samdrætti?

................................................................

Komdu sæl og takk fyrir fyrirspurnina
 
Afsakaðu seinaganginn vegna anna hjá mér, á svörun við fyrirspurninni þinni. Nú ættir þú að vera búin að fæða, 11 dögum eftir 41vikna meðgöngu þína, þegar fyrirspurnin barst og vona ég að allt hafi gengið eðlilega hjá þér. Samt ætla ég að leitast við að svara þér. Það er talið, að eðlilegt legvatnsmagn sé 800-1000 ml. í lok meðgöngunnar eða frá 36-39 vikum og eftir það fari það minnkandi. Það er nefnt polyhydramnion (of mikið legvatn), þegar magnið verður meira en 2 lítrar og gerist það í 1.5% tilfella barnshafandi kvenna á meðgöngu. Fremur er talað um fyrirburafæðingar tengdar of miklu legvatni í kennslubókum en meðgöngu fram yfir 40 vikur. Hins vegar er talað um ýmis óþægindi, sem geta komið fram hjá móðurinni vegna of mikils legvatns eins og mæði, brjóstsviði og ógleði.

Þegar legvatnið verður mikið eins og í þínu tilfelli, verður eðlilega meira þan á leginu, sem getur haft áhrif á, að legið dragist ekki nægilega vel saman eftir fæðinguna. Ljósmæður eru því sérstaklega á verði með það í huga eftir fæðinguna og eru þér gefin lyf til þess að legið dragist vel saman, þegar fæðingin er afstaðin.

Með von um að allt hafi gengið vel hjá þér,
 
Kolbrún Jónsdóttir,
hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir,
16. ágúst 2004
.