Of mikið legvatn

08.08.2013
Heil og sæl
Ég er komin 29 vikur á leið og legbotninn minn mældist 39 cm. Ég er greind með polyhydramnios og mældist legvatnið hjá mér 36 cm þegar ég fór í vaxtasónar komin 27 vikur. Allar rannsóknir hafa komið vel út og barnið lítur út fyrir að vera heilbrigt og í réttri stærð. Sykurþolprófið mitt kom líka vel út. Mér líður eins og ég sé á seinustu metrunum á þessari meðgöngu rosalegir samdrættir, mæði og svefnleysi en samt á ég 11 vikur eftir. Ég á þrjú önnur börn sem eru heilbrigð og voru þeir allir í meðalstærð. Hversu stór getur legbotninn orðið? Eru miklar líkur á að ég missi vatnið og á fyrir tímann? Hverjar eru líkurnar á að eitthvað sé að barninu og þó svo allar rannsóknir komi vel út? Er barnið mitt í hættu?
Takk fyrir

 


Komdu sæl og takk fyrir bréfið þitt, fyrirgefðu hvað það hefur dregist að svara þér.
Á vefnum okkar ljósmóðir.is hefur fyrirspurnum um of mikið legvatn og áhrif þess á meðgönguna verið svarað áður. Ég set hér inn krækjur á tvö eldri svör fyrir þig að skoða. Það virðist á bréfinu þínu að þú hafir verið send í hefðbundnar rannsóknir sem gerðar eru þegar of mikið legvatn hefur greinst og þær komið vel út, sem er gott.
Hins vegar er erfitt að sitja uppi með margar flóknar spurningar, sem erfitt er að svara í stuttu máli í pistli eins og þessum. Því ráðlegg ég þér eindregið að hafa samband við ljósmóðurina þína í mæðraverndinni, og fá aukatíma hjá henni til að ræða áhyggjur þínar. Gott er að skrifa hjá sér þær spurningar og vangaveltur sem á þér hvíla svo ekkert gleymist í spjallinu.

Ég vona að þetta hjálpi þér og gangi þér vel á lokasprettinum.


Bestu kveðjur,
Björg Sigurðardóttir,
ljósmóðir,
8. ágúst 2013