Spurt og svarað

03. apríl 2007

Of stór þvagblaðra í sónar

Góðan dag!

Ég fann ekkert um þetta hér og ákvað því að senda fyrirspurn. Ég fór í hnakkaþykktarmælingu á 12. viku og þar kom m.a fram að þvagblaðra barnsins væri of stór. Ég fór í fylgjusýnatöku sem gaf okkur niðurstöðu um að litningar barnsins væru eðlilegir, sem betur fer. Ég á að koma aftur á 16-17 viku þar sem þvagblaðran verður skoðuð nánar. Ég var búin að vera rosalega bjartsýn eftir að við fengum niðurstöðurnar úr fylgjusýnatökunni en núna er þetta farið að leita ítrekað á huga minn aftur og þá með talsverðum áhyggjum.Í öllu þessu ferli finnst mér ég ekki hafa náð þeim upplýsingum sem mér voru gefnar, annað en það að þetta geti gengið til baka eða verið vísbending um einhvern þvagfærasjúkdóm. Er eitthvað sem þið getið sagt mér til eða einhvern veginn reynt að róa hugsanir mínar í þessar 3 vikur sem ég þarf að bíða? Þarf ég að hafa áhyggjur af því að þetta sé það alvarlegt að barninu geti stafað hætta af?

Með fyrirfram þökk, Ein áhyggjufull.


Sæl!

Stór þvagblaðra finnst hjá 1 af hverjum 1500 konum og og oftast er hnakkaþykkt líka aukin. Það eru um  20% þessara fóstra með litningagalla og ef það reynist ekki vera litningagalli þá hverfur þetta vandamál af sjálfu sér í 90 % tilfella. Það hefur verið vinnuregla að skoða þessi fóstur aftur við 16-17 vikur og í fleiri en færri tilfellum hefur verið eðlilega um  þvagblöðru að ræða. Því miður er alltaf erfitt að bíða en tíminn  verður að vinna með okkur í svona málum. Ef þessar upplýsingar nægja ekki, endilega panta tíma hjá sérfræðingi á Fósturgreingardeildinni eða fá viðtal í síma.

Kær kveðja og gangi þér vel,

María Hreinsdóttir
ljósmóðir, deildarstjóri Fósturgreiningardeildar LSH,
3. apríl 2007.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.