Aum bumba, sárt þegar barnið sparkar

14.10.2014
Hæ hæ.
Ég hef verið að leita að upplýsingum varðandi hvað gæti valdið því að ég er með auma bumbu sem er sérstaklega sár þegar barnið sparkar. Ég er i 35 viku og veit að ég geng með frekar stórt barn sem er mjög duglegt að hreyfa sig og sparka. Undanfarna daga hef ég verið mjög aum i hægri hluta bumbunnar alveg frá rifbeinum niður i nára. Ég finn lítillega til við flestum hreyfingum sem ég geri eins og að bylta mér a næturnar, standa upp ef ég hef setið eða legið, ganga um eða beygja mig, en þegar barnið mitt sparkar hægra megin i bumbunni kveinka ég mér hreinlega af sársauka. Ég er samt ekki aum þegar ég strýk yfir magann, það er eins og ég sé bara aum að innanverðu. Kannist þið við þetta?
Kærar þakkir fyrir frábæran vef
Komdu sæl. Þessir verkir í síðunni eru líklega vegna togs á legböndin sem halda leginu og teygjast á þegar legið stækkar. Legböndin er sitthvoru megin en oft finnur maður meira fyrir því öðru megin. Maður getur fundið sérstaklega fyrir þessu þegar maður er einmitt að snúa sér í rúminu, vinda upp á sig eða þegar maður stendur upp. Svo þegar barnið sparkar þarna í getur maður fundið fyrir þessum verkjum.
Gangi þér vel.Kær kveðja,
Súsanna Kristín Knútsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
14. október 2014.