Ófrísk eftir svuntuaðgerð

27.08.2014
Góðan dag.
Þannig er mál með vexti að ég fór í svuntuaðgerð fyrir um það bil 6 mánuðum síðan og var mjög óvænt að komast að því í dag að ég er ófrísk, ég var á Nuvaring en hann hefur eitthvað klikkað. Það var alls ekki á planinu að eignast fleiri börn en ég get ekki hugsað mér að láta eyða. Það sem ég er að spá er hvort að það gæti hreinlega verið bannað að eignast barn svona stuttu eftir svuntuaðgerðina?Sæl vertu.
Það er alls ekki bannað að verða ófrísk og ganga með barn svo stuttu eftir svuntuaðgerð. Margar konur ganga með börn eftir svuntuaðgerð en að öllu jöfnu er ekki mælt með að verða ófrísk fyrr en 8-12 mánuðum eftir svuntuaðgerð. Ástæðan er sú að í aðgerðinni eru kviðvöðvarnir styttir og þeir færðir saman auk þess sem húðin er strekkt og oft mikið af húð sem er fjarlægð. Vöðvarnir og húðlögin þurfa tíma til að gróa vel áður en mikið álag kemur á vefina aftur eins og við meðgöngu. Það er ekki hættulegt að ganga með barnið svo stuttu eftir aðgerðina heldur eru auknar líkur á að það þurfi að endurtaka svuntuaðgerðina eftir meðgönguna ef vefirnir hafa ekki fengið að gróa vel áður en þan kemur á þá aftur.
Gangi þér sem allra best


Með bestu kveðju,
Signý Dóra Harðardóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfærðingur,
27. ágúst 2014.