Spurt og svarað

30. desember 2014

ófrísk með pest :-(

Góðan dag!
Ég er komin 8 vikur a leið og síðan a föstudagskvöld er ég búin að vera með hita og kvef - gæti verið flensa (hósti, beinverkir og stíflað nef). Ég held ég hafi verið með frekar háan hita í fyrrinótt þar sem ég lá í svitakófi og ýmist kalt eða heitt. Ég tók eina parasetamol um morguninn og var svo i rúminu mestallan daginn. Ég fékk fyrst hitamæli um kvöldið og var þá bara með tæpar 8 kommur. Í dag var ég eitthvað skárri, en er samt komin með rúmlega 38 stiga hita í kvöld, og var að taka parasetamol. Á ég að hafa  áhyggjur af því að þetta geti skaðað fóstrið? Er best að halda áfram að taka eina og eina parasetamol? Kær kveðja og bestu þakkir fyrir frábæran vef!
Emma.


Sæl Emma, það er nú hálf leiðinlegt að leggjast í pest núna. Þú getur ekki gert neitt nema að fara vel með þig, drekka vel, láta þér ekki verða kalt og passa að slá ekki niður. Fóstrið er vel varið og skaðast oftast nær ekki af veikindum móður. Þú skalt taka paracetamol ef þú ert með hita og eins og ég sagði áðan passa að drekka vel. Þú þarft meiri vökva þegar þú ert með hita. Það getur líka hjálpað að drekka panodil hot  (panodil og paracetamol eru það sama) þegar nefið er stíflað því að það er gott að anda að sér gufunni af því.  Svo skaltu halda þig inni og við rúmið því að þú ert greinilega með leiðindapest. Góðan bata!!!

Bestu kveðjur
Áslaug Valsdóttir
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur
30.12.2014
Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.