Spurt og svarað

21. janúar 2008

Ógerilsneiddar mjólkurvörur

Góðan dag!

Ég er byrjuð að lesa mikið á mjólkurvörur út af þessari Listeríu og af þvi að maður á að forðast það að drekka ógerilsneidda mjólk eða mjólkurvörur. Ég las á Bio Mjolk sem ég keypti mér að það séu lifandi Biogarde gerlar og hef ekki þorað að drekka hana. Þýðir það ekki það sama og hún er ógerilsneydd? Eins stóð á LGG sem ég keypti um daginn að það væru gerlar, man ekki nákvæmlega hvernig.

Kær kveðja.


Sæl og blessuð - og takk fyrir að leita til okkar!

Við leituðum upplýsinga hjá Grími Ólafssyni, sérfræðingi hjá Umhverfisstofnun sem gat frætt okkur á því að allar mjólkurafurðir hér á landi eru gerilsneyddar áður en frekari vinnsla hefst. Eftir gerilsneyðingu fer síðan mjólkin í frekari vinnslu s.s. framleiðslu á sýrðum afurðum, ostum o.fl. Í ýmsar afurðir eru notaðir hreinræktaðir gerlar, sérstakir kúltúrar fyrir hverja afurð, s.s. jógúrt, súrmjólk, AB mjólk o.sfrv.  Þessir gerlar eiga ekki að vera skaðlegir ef hreinlæti og annað í vinnslunni hefur verið í lagi þannig að ef góðra framleiðsluhátta er gætt þá eiga þessar afurðir að vera í lagi.

Vaðandi listeríu í mjólkurafurðum þá er hættan fyrst og fremst ógerilsneyddir ostar. Það er bannað að flytja þá inn, en fólk kemur stundum með þetta sjálft. Þetta geta  verið t.d. Camenbert og Brie ostar frá Frakklandi.

Þér ætti því að vera óhætt að fá þér Bio mjólk, LGG og fleiri mjólkurvörur í þeim dúr.

Kær kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
21. janúar 2008.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.