Ólétt í útlöndum

27.03.2015

Hæ hæ og takk fyrir mjög hjálplegan vef. Ég er ný flutt til Noregs og er núna gengin 22 vikur. Fyrir um viku síðan fékk ég niðurstöður úr blóðmælingum hér úti og kom í ljós að ég var lág í bæði B-12 (mælist 169) og Járni (Ferritin mælist 12). Ég hef því verið sett á vikulegar sprautur af 1ml af 1mg/ml af vitamin B12 og svo 2ml af 50mg/ml CosmoFer. Læknirinn treysti mér ekki í að taka járn töflur og vildi að ég færi beint á sprautur þar sem ég er enn svo slæm af ógleði. Stefnan er að fá sprautur vikulega í 5 vikur og taka þá aftur stöðuna. Ég hef séð mjög mismunandi álit á að gefa bæði B-12 og járn í sprautuformi á meðgöngu og langar að fá ykkar álit á því hvort ég þurfi að hafa einhverjar áhyggjur og hvort sama meðferð yrði ákveðin heima? Þarf ég að hafa áhyggjur af því að skorturinn sem hefur verið í blóðinu hingað til hafi valdið einhverju skaða fyrir fóstrið? Ætti ég að taka meira af fólin sýru heldur en ég geri venjulega útaf þessu (er að taka 400 microgröm á dag)? Kveðja Ein ólétt í útlöndumHeil og sæl, það er ekki endilega einfalt að svara spurningum þínum þar sem allar upplýsingar um þig eru ekki við höndina. En varðandi B-12 þá er það alltaf lækkað á meðgöngu og hefur ekki mikla þýðingu að mæla það þá, nema ef þú hefur áður glímt við B-12 skort. Miðað við þær upplýsingar sem eru í bréfinu þínu finnst mér ólíklegt að þú hefðir verið sett á sprautur hér. Varðandi Ferritínið kemur ekki fram hvað þú ert gömul en 12 er innan eðlilegra marka fyrir konur 17 ára og yngri, konur 17-50 ára eru aðeins hærri eða frá 15. Það er algengara hérlendis  að setja konur á járnríkt fæði og töflur sem fyrstu meðferð. Þú þarft ekki að hafa áhyggjur af því að þinn skortur hafi haft áhrif á fóstrið. Hér ráðleggjum við 400 – 500 microgröm af fólíni á dag svo að þú ert í góðum málum
Ég ráðlegg þér að ræða betur við lækninn sem setti þig á þetta. Var það fæðingalæknir? og þá ljósmóður sem skoðar þig í mæðravernd. Þau eru með allar upplýsingar um þig og ættu að geta gefið þér skýr svör. Gangi þér vel.


Bestu kveðjur
Áslaug V.
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur
27. mars 2015