Ólétt í útlöndum, komin 5 vikur

01.05.2008

Sælar.

Ég er 23 ára og komst að því um daginn að ég er ólétt og er kominn u.þ.b. 5 vikur á leið. Núna bý ég úti í Danmörku en flyt heim til Íslands í júní, um það leiti sem ég verð komin 12 vikur á leið. Þetta er mín fyrsta ólétta og ég veit í raun lítið hvert ég á að snúa mér. Þarf ég að fara til læknis eða í skoðun áður en ég kem heim eða nægir að fara í 12 vikna sónar um leið og ég kem heim?  Og ef ég þarf að fara í skoðun eða til læknis hérna úti, vitið þið eitthvað hvert ég á að snúa mér?

Bestu kveðjur, ein áttavillt í útlöndum.Sæl og blessuð!

Hér á landi er mælt með því að fyrsta viðtal í meðgönguverndinni fari fram við 8-10 vikna meðgöngu. Þetta viðtal er við ljósmóður og gott að panta tíma með góðum fyrirvara. Þar sem þú verður ekki flutt heim á þessum tíma gæti verið sniðugt fyrir þig að ræða við ljósmóður á heilsugæslustöðinni sem þú munt leita til hér á landi í síma, t.d. til að fá upplýsingar um ómskoðun sem er í boði í kringum 12 vikur.

Ég vona að þú getir nýtt þér vel það fræðsluefni sem er í boði hér á vefnum en vil sérstaklega benda þér á að lesa pistilinn um Næringu á meðgöngu.

Kær kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
1. maí 2008.