Ólétt með 7 mánaða barn á brjósti?

25.04.2012
Ég er mikið að velta fyrir mér, ég á eina 7 mánaða dóttur sem er nær eingöngu á brjósti. Hún borðar þó 2 - 3 á dag en fær yfirleitt brjóst fyrir eða eftir mat og nokkrum sinnum yfir daginn. Einnig drekkur hún einu sinni til tvisvar á nóttunni. Ég er ekki á neinni getnaðarvörn og enn ekki byrjuð á túr aftur eftir að ég átti og svo óheppilega vildi til að ég og pabbi hennar stunduðum óvarið kynlíf án þess þó að hvorugt fengi fullnægingu aðfaranótt 8. apríl. Ég veit að það er eflaust erfitt að segja, en hverjar eru líkurnar á því að þungun getur átt sér stað án þess að maðurinn fái fullnægingu? Ég byrjaði fljótlega í síðustu viku að steypast út í bólum í framan og fylltist öll af kvefi. Ég er með pínu áhyggjur yfir því að geta verið ólétt og finnst ég ekki vera tilbúin til að koma með annað barn strax. Ef svo óheppilega vill til að ég sé ólétt hvenær get ég tekið óléttupróf sem mark er hægt að taka á og hvernig get ég reikna út hversu langt ég er komin?

Með von um skjót svör og þakkir fyrir góða vefsíðu.Sæl og blessuð!

Þú getur ekki treyst á brjóstagjöfina sem getnaðarvörn þar sem barnið er nú þegar eldra en 6 mánaða og ekki eingöngu á brjósti. Það er vissulega ekki miklar líkur á þungun ef maðurinn hefur ekki haft sáðlát en ef þig grunar þungun þá getur þú tekið þungunarprófið  21 degi eftir óvarðar samfarir.

Kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
25. apríl 2012.