Ólétta eftir fertugt

18.02.2011

Sæl Anna!

Hvert get ég snúið mér til að fá upplýsingar um ólettu eftir fertugt?

Kveðja, S.


Sæl!

Við höfum ekki sett upp sérstakar upplýsingar um óléttu eftir fertugt en ættum kannski að taka það til athugunar. Það eru mun fleiri konur sem eignast börn eftir fertugt nú en áður. Það eru meiri líkur en minni að meðganga og fæðing gangi vel þrátt fyrir að verðandi móðir sé yfir fertugt þó vissulega sé aukin áhætta á einhverjum vandamálum. Mesta áhættan er sennilega á fyrstu vikum meðgöngunnar því það eru meiri líkur á fósturláti og litningagöllum hjá eldri konum en yngri. Ef þetta er fyrsta barn er aukin áhætta á meðgöngueitrun þegar aldur móður er yfir 35 ár.

Þetta eru auðvitað ekki tæmandi upplýsingar en svona það helsta mér dettur í hug. Þú getur að sjálfsögðu leitað til ljósmóður á þinni heilsugæslustöð og fengið frekari upplýsingar, nú eða sent okkur aftur fyrirspurn.

Kær kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
18. febrúar 2011.