Spurt og svarað

08. júlí 2013

Olíuviðarvörn - áhyggjufull

Sælar og takk fyrir frábæran vef!
Ég er ný búin að komast að því að ég er ófrísk, líklega gengin 6 vikur. Ég er búin að vera frekar óregluleg eftir að ég eignaðist fyrsta barn fyrir einu og hálfu ári og var því lengi að átta mig á að ég gæti verið ólétt! Það var þanin bumba og ógleði sem kom svo upp um lítinn laumufarþega. Getur verið að það sé farið að sjást á mér eftir svona stutta meðgöngu? En mitt helsta áhyggjuefni og ástæðan fyrir að ég sendi ykkur línu er að við hjónin erum búin að vera í að smíða pall fyrir utan hjá okkur og þ.m.t. að bera olíuviðarvörn á hann. Ég hjálpaði aðeins til við að bera á (í u.þ.b. klukkustund) en var svo einnig útivið á meðan verið var að bera á því það barst mikil lykt inn og ólíft að vera þar. Ég er mjög hrædd um að ég hafi gert laumufarþeganum mikinn óleik þarna og óttast afleiðingar - þar sem ég veit jú að uppgufunin af slíkum efnum er alls ekki góð. Hvað ráðleggið þið konum að gera í svipaðri stöðu? Hverjar geta afleiðingar af slíkri eitrun orðið?
Með von um skjótt svarSæl og til hamingju með litla laumufarþegann.
Skiljanlega ertu stressuð að hafa skaðað fóstrið en samkvæmt þeim greinum sem ég hef lesið varðandi eituráhrif tengd hárlit og málningu er talað um möguleg eituráhrif við endurtekna langvarandi notkun eða innöndun, sérstaklega hjá þeim sem vinna í þessum efnum daglega.
Út frá þessum heimildum tel ég nokkuð ólíklegt að þessi klukkutími þar sem þú andaðir að þér gufum frá viðarvörninni hafi haft skaðleg áhrif á fóstrið. Ég tel líka kost að þú hafir verið að vinna utandyra og því minni mettun eiturefna í andrúmsloftinu.


Gangi þér vel, með von um gott sumar,
Margrét Unnur Sigtryggsdóttir,
Hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir
,
8. júlí 2013

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.