Omega 3-6-9 - Hver er munurinn?

22.08.2009

Hæ hæ!


Mig langaði að byrja á því að þakka ykkur fyrir frábæran vef, sér í lagi þar sem ég bý í útlöndum!
Þar sem úrvalið (og gæðin) af fiski er ekki í líkingu við það sem er á Íslandi og þar sem ég hef mjög slæma reynslu af Lýsi (get bara ekki með nokkru móti haldið því niðri) ætlaði ég að prófa að taka Omega-3. Nema hvað, ég fann eitthvað sem heitir Omega 3-6-9. Flestar spurningar og svör hér inni fjalla um Omega 3, og aðeins eitt svar kom aðeins inn á Omega 6.

Spurning mín er því hvort Omega 3-6-9 sé betri/verri kostur en eingöngu Omega 3? Hver er munurinn á þessum þremur tegundum af Omega? Ég tek líka Fólín en reyni annars að borða holla og fjölbreytta fæðu.

Bestu kveðjur, Ein í útlöndum komin sjö vikur á leið.


Sæl og blessuð!


Ómega-3
Er mikilvægt næringarefni fyrir margs kyns starfsemi líkamans, einkum viðbrögð ónæmiskerfis. Þar sem við getum ekki framleitt hana sjálf erum við háð því að fá hana úr fæðunni. Mest magn ómega-3 fitusýru er að finna í kaldsjávarfiskum eins og sardínum, laxi, síld, túnfiski, þorski, makríl, lúðu og hákarli en finnst einnig í minna mæli í hörfræjum, valhnetum, nýrnabaunum, snittubaunum og sojabaunum. Mataræði margra er þannig að ólíklegt er að við náum að fá æskilegt magn af ómega 3 fitusýrum með fæðunni eingöngu og því getur verið gott að taka inn ómega 3 fitusýrur í hylkjum.

Ómega-6
Er heldur ekki framleidd í líkamanum og því verðum við að fá hana með fæðunni. Ómega-6 fitusýrur er að finna í korni, soyjaafurðum, flestum jurtaolíum svo sem úr sojaolíu og sólblómaolíu (ekki í ólívuolíu). Nauðsynlegt er að jafnvægi ríki í neyslu á ómega fitusýrum þar sem of mikið af Ómega-6 hindrar upptöku á Ómega 3 og getur þannig valdið skorti á Ómega-3. Það er mjög líklegt að flestir fái of mikið af ómega-6 fitusýrum með fæðunni og því ætti ekki að taka hana inn sem fæðubótarefni.

Ómega-9
Það er nóg af ómega-9 fitusýrum í daglegu fæði flestra og líkaminn getur einnig framleitt hana. Ómega-9 fitusýrur eru t.d. í dýrafitu og ólívuolíu.
Samkvæmt þessu þá sé ég ekki ástæðu fyrir þig að taka inn Ómega 3-6-9 og það hlýtur að vera betra að taka inn eingöngu Ómega-3 fitusýrur.

Sjá nánar um gagnsemi ómega-3 fitusýra hér á vefnum.

Vona að þetta skýri málið.

Kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
22. ágúst 2009.

Leitarorð: Omega-3, Ómega-3, Omega-6, Ómega-6, Omega-9, Ómega-9, fitusýra, fitusýrur