Spurt og svarað

22. ágúst 2009

Omega 3-6-9 - Hver er munurinn?

Hæ hæ!


Mig langaði að byrja á því að þakka ykkur fyrir frábæran vef, sér í lagi þar sem ég bý í útlöndum!
Þar sem úrvalið (og gæðin) af fiski er ekki í líkingu við það sem er á Íslandi og þar sem ég hef mjög slæma reynslu af Lýsi (get bara ekki með nokkru móti haldið því niðri) ætlaði ég að prófa að taka Omega-3. Nema hvað, ég fann eitthvað sem heitir Omega 3-6-9. Flestar spurningar og svör hér inni fjalla um Omega 3, og aðeins eitt svar kom aðeins inn á Omega 6.

Spurning mín er því hvort Omega 3-6-9 sé betri/verri kostur en eingöngu Omega 3? Hver er munurinn á þessum þremur tegundum af Omega? Ég tek líka Fólín en reyni annars að borða holla og fjölbreytta fæðu.

Bestu kveðjur, Ein í útlöndum komin sjö vikur á leið.


Sæl og blessuð!


Ómega-3
Er mikilvægt næringarefni fyrir margs kyns starfsemi líkamans, einkum viðbrögð ónæmiskerfis. Þar sem við getum ekki framleitt hana sjálf erum við háð því að fá hana úr fæðunni. Mest magn ómega-3 fitusýru er að finna í kaldsjávarfiskum eins og sardínum, laxi, síld, túnfiski, þorski, makríl, lúðu og hákarli en finnst einnig í minna mæli í hörfræjum, valhnetum, nýrnabaunum, snittubaunum og sojabaunum. Mataræði margra er þannig að ólíklegt er að við náum að fá æskilegt magn af ómega 3 fitusýrum með fæðunni eingöngu og því getur verið gott að taka inn ómega 3 fitusýrur í hylkjum.

Ómega-6
Er heldur ekki framleidd í líkamanum og því verðum við að fá hana með fæðunni. Ómega-6 fitusýrur er að finna í korni, soyjaafurðum, flestum jurtaolíum svo sem úr sojaolíu og sólblómaolíu (ekki í ólívuolíu). Nauðsynlegt er að jafnvægi ríki í neyslu á ómega fitusýrum þar sem of mikið af Ómega-6 hindrar upptöku á Ómega 3 og getur þannig valdið skorti á Ómega-3. Það er mjög líklegt að flestir fái of mikið af ómega-6 fitusýrum með fæðunni og því ætti ekki að taka hana inn sem fæðubótarefni.

Ómega-9
Það er nóg af ómega-9 fitusýrum í daglegu fæði flestra og líkaminn getur einnig framleitt hana. Ómega-9 fitusýrur eru t.d. í dýrafitu og ólívuolíu.
Samkvæmt þessu þá sé ég ekki ástæðu fyrir þig að taka inn Ómega 3-6-9 og það hlýtur að vera betra að taka inn eingöngu Ómega-3 fitusýrur.

Sjá nánar um gagnsemi ómega-3 fitusýra hér á vefnum.

Vona að þetta skýri málið.

Kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
22. ágúst 2009.

Leitarorð: Omega-3, Ómega-3, Omega-6, Ómega-6, Omega-9, Ómega-9, fitusýra, fitusýrur

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.