Ómega-3 gegn fæðingarþunglyndi?

22.08.2009

Sælar!

Ég er nú nýbúin að fá jákvætt þungunarpróf og á því von á mínu öðru barni. Átti frekar erfitt fæðingarorlof síðast og lengi á eftir vegna fæðingarþunglyndis. Er hrædd við að ganga í gegnum þetta á nýjan leik. Systir mín hafði átt við samskonar vandamál að stríða og á hennar síðustu meðgöngu var henni ráðlagt að taka ómega fitusýrur til að varna/draga úr líkum á fæðingarþunglyndi. Er núna búin að fjárfesta í ómega fitusýrum en langar að vita hvort eitthvað sé til í þessu?

Með fyrirfram þökk, áhugasöm.


Sælar!

Sýnt hefur verið fram á með rannsóknum að konur sem taka inn Omega-3 á meðgöngu fæði síður fyrir tímann og séu ólíklegri til að þjást af fæðingarþunglyndi. Samkvæmt rannsókn Helland, Smith, Saarem, Saugstad og Drevon sem birtist í Pediatrics árið 2003 getur inntaka mæðra á Omega-3 á meðgöngu og við brjóstagjöf verið jákvæð fyrir seinni tíma vitsmunaþroska barna.

Gangi þér vel.

 

Kær kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
22. ágúst 2009.