Ómskoðun við 18 vikur - er það of snemmt?

10.04.2008

Ég verð á ferðalagi erlendis frá 18 vikum og 3 dögum - 23 viku meðgöngunnar.  Það vill svo óheppilega til að þetta hittir á tímann sem eðlilegt væri að fara í 20 vikna ómskoðun.  Í öðru svari á vefnum ykkar sá ég að eftir 22 vikur er ekki löglegt að fara í fóstureyðingu á Íslandi, jafnvel þó meiriháttar fósturgallar uppgötvist og vegna þeirra tímamarka er tilgangslaust fyrir mig að fara í þessa skoðun að ferðalaginu loknu.

Vil taka það fram að ég hef miklar áhyggjur af því hvort ófætt barnið sé heilbrigt eða ekki og treysti mér engan veginn til að takast á við barn með mikla fötlun, enda veit ég af eigin reynslu hvað það þýðir að alast upp með mikið fötluðum einstakling, það er byrgði sem ég get ekki viljandi lagt á herðar barnanna minna.

1) Hversu áreiðanleg er ómskoðun við 18 vikur og 2 daga?  Er það ekki of snemmt til að fá sem nákvæmastar niðurstöður?

2) Mér var ráðlagt frá því að nýta mér sónar úti á landi sökum æfingarleysis sónarlækna þar.  Er eitthvað til í þessu?  Hvað þarf sónarlæknir að greina mörg börn á dag til að teljast hæfur og/eða í æfingu? 

3) Er það rétt að nýlega hafi fæðst barn með alvarlega vansköpun sem hefði átt að greinast í sónar?  Hvernig getur það gerst?  Þarf ekki fleiri rannsóknir á meðgöngunni?

4) Hefur maður rétt til að spyrja sónarlækni í hversu góðri æfingu hún/hann er?


Með von um svör, mamma með miklar, miklar áhyggjur.


Sæl og blessuð!

Ég mæli eindregið með þú komir í sónar áður en þú leggur í þetta ferðalag, og þá helst nokkrum dögum áður en þú ferð ef svo óheppilega vildi til að eitthvað væri að. Það eru ekki mörg ár síðan að öll fósturgreining fór fram við 18 vikur, en við breyttum tímanum þegar við hófum 12 vikna skoðanir líka. Þeir aðilar sem gera fósturgreiningu út á landi hafa allir leyfi til þess, það er engin skoðun eða skoðandi sem getur greint alla hluti þannig er nú bara lífið.

Gangi þér vel.

Kær kveðja,

María Jóna Hreinsdóttir,
ljósmóðir - deildarstjóri fósturgreinardeildar LSH,
10. apríl 2008.