Öndunaræfingar og fæðingastellingar í mæðravernd

02.09.2009

Góðan dag kæru ljósmæður!

Ég hef heyrt að í öðrum Evrópulöndum fari hluti af mæðraverndinni í að gera og læra öndunaræfingar og að æfa fæðingarstellingar. Er þetta líka gert hér á landi?

Ég hef aldrei heyrt um það hérna og finnst einmitt skrítið ef það er ekki gert að hafa enga hugmynd um hvernig maður er og á að vera þegar að stóra deginum kemur.

Með fyrirfram þökk.


Sæl og takk fyrir góða fyrirspurn!

Það hefur ekki verið venjan hér að kenna öndunaræfingar og fæðingarstellingar í mæðraverndinni sjálfri. Aftur á móti er boðið upp á fæðingafræðslunámskeið hjá heilsugæslunni þar sem farið er í þessi atriði. Einnig er þetta stór hluti af því sem konur læra í meðgöngujóga.

Ljósmæður í mæðravernd eru mjög opnar fyrir spurningum og ég er viss um að ljósmóðirin þín er til í að gefa þér góð ráð. Hún getur einnig veitt þér upplýsingar um fæðingafræðslunámskeið.

Gangi þér vel.

Kær kveðja,

Harpa Ósk Valgeirsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
2. september 2009.