Önnur nýrnaskjóðan stærri

24.05.2009

Góðan dag!

Mig langaði að forvitnast hvort þið gætuð gefið mér smá upplýsingar. Þannig er mál með vexti að bæði í 20 vikna sónar og 34 vikna sónar mældist önnur nýrnaskjóðan aðeins stærri en hún á að vera. Í 34 vikna sónar mældist hún 11 mm (minnir að mm sé mælieiningin sem læknirinn notaði). Mér fannst ég fá svo litlar upplýsingar um hvað þetta þýðir annað en að læknirinn sagði að þetta væri ekki hættulegt og að það þyrfti að fylgjast með barninu eftir fæðingu. Getið þið gefið mér einhverjar upplýsingar um þetta mál?

Með fyrirfram þökk. Ein áhyggjufull móðir. 


Sæl!

Víkkun á nýrnaskjóðum hjá fóstri á meðgöngu er lang oftast vegna þess að þvagleiðarar eru  linir og óþroskaðir sem veldur því að það kemur oft smá knekkur á hann og þá fer þvag til baka í nýrnaskjóðuna. Þetta lagast lang oftast af sjálfu sér þegar barnið stækkar og þroskast. Mælt er með að ómskoða nýru barns eftir fæðingu og fer það eftir hversu víðar þær eru hvort eitthvað þarf að gera. Mér heyrist í þínu tilfelli þar sem nýrnaskjóðan mælist 11 mm, en allt að 10 mm er eðlilegt að þú þurfir ekki að hafa áhyggjur.

Kveðja og gangi þér vel,

María Jóna Hreinsdóttir,
ljósmóðir - deildarstjóri fósturgreinardeildar LSH,
24. maí 2009.