Spurt og svarað

27. júní 2011

Oolong te á meðgöngu

Sælar og takk fyrir góðan vef.

Mig langar svo að vita hvað ykkur finnst um drykkju á Oolong te á meðgöngu. Þetta er svokallað hvítt te og á að innihalda mjög lítið koffín. Ég drakk 1-2 bolla suma daga þegar ég gekk með fyrra barnið og fannst það halda bjúgnum nokkuð vel í skefjum. Einnig hef ég drukkið þó nokkuð af því eftir að brjóstagjöf lauk og fann mun á andlegri líðan og einbeitingu. Nú er ég gengin 6 vikur með mitt annað barn og er að hugsa um að kaupa mér pakka. Hvað finnst ykkur?


Sæl og blessuð!

Oolong te er búið til úr sömu plöntu og svart te og grænt te en vinnsluaðferðin er önnur. Oolong te er hálfgerjað, svart te er fullgerjað en grænt te er ógerjað. Einn bolli af Oolong tei inniheldur um 50-60 mg af koffíni. Samkvæmt mínum heimildum er í lagi að drekka Oolong te á meðgöngu en þó ætti ekki að drekka meira en 2 bolla á dag.

Oolong te inniheldur talsvert magn af efnum sem kallast Polyphenols sem talin eru geta haft góð áhrif á heilsu okkar. Teið er m.a. talið hafa andoxunaráhrif, lækka blóðfitur, auka fitubrennslu, fyrirbyggja hjartasjúkdóma, vera gott við meltingarvandamálum, styrkja ónæmiskerfið og beinin og vinna gegn tannskemmdum.  

Te-kveðjur,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
27. juní 2011.


Heimildir

http://www.webmd.com/vitamins-supplements/ingredientmono-1099-OOLONG%20TEA.aspx?activeIngredientId=1099&activeIngredientName=OOLONG%20TEA

http://www.oolongtea.org/e/health/04.html

http://www.teabenefits.com/oolong-tea-benefits.html

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.