Ávaxtasafar á meðgöngu

19.10.2007

Sælar og takk fyrir góðan vef.

Mig langaði að forvitnast...

...ég var í fyrstu mæðraskoðuninni og ljósmóðirin benti mér á að forðast ávaxtasafa. Mig langar að vita af hverju eigi að gera það því yfir höfuð hélt ég að þeir væru hollir þá þeir sem að ekki er búið að bæta sykri og fleiri bætiefnum í. Og líka fyrst að maður eigi nú að borða mikið af hollum mat þar á meðal ávöxtum.

Kveðja, Vala.


Sæl og blessuð Vala og takk fyrir að leita til okkar!

Ég veit ekki hvers vegna ljósmóðirin þín sagði þetta. Ég veit ekki betur en að ávaxtasafi sé hollur og góður fyrir konur á meðgöngu. Þá á ég auðvitað við hreinan safa en hann er hollur og inniheldur vítamín s.s. C-vítamín sem t.d. eykur upptöku járns í líkamanum. Það er auðvitað enn betra að borða ávextina eins og þeir koma fyrir. Það er gott að hafa í huga að ávaxtasafi er orkuríkur þannig að það er best að neyta hans í hófi og nota frekar vatn til að svala þorsta. Vatnið er líka hollur drykkur og fer betur með tennurnar.

Endilega spurðu ljósmóðurina þína í næstu skoðun hvað hún átti við. Það væri svo gaman að heyra frá þér aftur.

Kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
19. október 2007.