Hröð fæðing líka næst?

06.06.2017

Sæl ég á þrjár fæðingar að baki og tvær síðustu voru mjög hraðar. Sú fyrri þeirra þannig að barnið fæddist með alveg fjólublátt höfuð af mari og sú seinni þannig að frá því að ég vaknaði upp með verki og þar til barnið var fætt leið innan við hálftími. Eftir þá fæðingu sagði ljósmóðirin sem tók á móti barninu mér að ef ég hygði á frekari barneignir skildi ég ekki reikna með að ná á spítala til að fæða. Nú er ég nýbúin að komast að því að ég er ófrísk og gengin rúmar fimm vikur. Ég er strax farin að kvíða fæðingunni hræðilega og því að ég muni ekki ná á spítala. Hef ég raunverulega ástæðu til að hafa áhyggjur af þessu?

Heil og sæl, ég held að ef þú ert hraust og meðganga þín eðlileg þá er heimafæðing góður kostur fyrir konu eins og þig. Það er ekki víst að næsta barn fæðist með svona eldingarhraða en það eru þó nokkrar líkur til þess samt. Það gæti því verið sniðugt fyrir þig að ræða við heimafæðingarljósmóður þegar líður á meðgönguna. Gangi þér vel.