Minningar á meðgöngu um tilfinningar tengdar kynferðisofbeldi

06.06.2017

Sælar nú er liðinn smá tími frá því að ég var ólétt og langar mig að vekja athygli á þessu vandamáli sem kom upp hjá mér og senda fyrirspurn um leið um það hvernig hægt sé að bregðast við. Þegar ég var ólétt fór ég að finna fyrir alls kyns vondum tilfinningum sem ég svo tengdi við kynferðisofbeldi sem ég hafði orðið fyrir nokkrum árum áður. Ég var hrædd við manninn minn í ýmsum aðstæðum (hann er ekki sá sem beitti ofbeldinu), var hrædd almennt og fannst ég ekki vera frjáls, heldur mjög heft eins og allri stjórn yfir líkama mínum væri hrifsuð af mér. Þegar mér fannst ég eiga að finna fyrir móðurást og eintómri gleði yfir því að vera að búa til barn inní mér upplifði ég sjálfsvígshugsanir. Ég leitaði og leitaði á netinu, inná þessari vefsíðu og vefsíðu landlæknis og heilsugæslunnar en fann aldrei neitt um þetta. Því spyr ég. Þegar óléttar konur upplifa svona eða eitthvað svipað, hvert geta þær leitað? Og önnur mikilvæg spurning. Hvernig byrjum við þetta samtal? Þegar ég var inn í aðstæðunum er ég ekki viss um að ég hafi endilega átt auðvelt með að finna réttu orðin, buguð af samviskubiti yfir þessum bönnuðu tilfinningum. Hvaða orð og/eða hugtök getum við notað þegar við erum t.d. spurðar af hverju við viljum tala við sálfræðing? Ég var beðin um að segja eitthvað stikkorð þegar ég hringdi í mæðraverndina að falast eftir viðtali við sálfræðing. Svo ein lokaspurning. Eru til einhverjar íslenskar rannsóknir um þetta sem þið vitið um? Kær kveðja

Heil og sæl, því miður hefur ekki mikið verið rannsakað og kannski ekki mikil umræða um þennan vanda undanfarin ár. Það hefur þó orðið nokkur vitundarvakning undanfarið og t.d. er hópur ófrískra kvenna sem orðið hefur fyrir ofbeldi á námskeiðum á heilsugæslunni í Kópavogi að ég held. Ég ráðlegg þér eindregið að segja ljósmóðurinni þinni í meðgönguverndinni frá líðan þinni og fá hana til að koma þér í réttan farveg. Íslenskar rannsóknir um áhrif kynferðisofbeldis á konur þegar kemur að meðgöngu þeirra eru mér vitanlega ekki til en það er til ein rannsókn um áhrif ofbeldis á konur á meðgöngu. Sálfræðingum hefur nú fjölgað við heilsugæsluna og ættir þú að geta fengið tíma hjá þeim. Stikkorð þitt gæti ofbeldi, mikil vanlíðan, sjálfsvígshugsanir. Vonandi kemstu þú sem fyrst í einhvern farveg svo hægt sé að vinna í vandanum. Gangi þér vel.