Ósamræmi í svörum um osta

29.04.2008

Mig langaði að benda á að það er ósamræmi í svörum hjá ykkur varðandi íslenska osta. Sum svör mæla með því að sleppa mygluostunum, þó þeir íslensku séu gerilsneyddir, meðan önnur svör segja að það sé í fínu lagi að borða alla íslenska osta.


Samkvæmt því sem við best vitum er barnshafandi konum óhætt að borða alla íslenska osta því rannsóknir á íslenskum ostum sýna að ekki er hætta á smiti við neyslu þeirra.

Í Bretlandi er barnshafandi konum þó ráðlagt að borða ekki mygluosta s.s. Brie, Camenbert og Gráðost, hvort sem þeir eru unnir úr gerilsneyddri mjólk eður ei. Þetta er ráðlagt til þess að minnka líkur á því að barnshafandi konur sýkist af Listeríu sem getur verið mjög hættuleg fyrir ófædda barnið.  Mygluostar eru basískari og innihalda meiri vökva en aðrir ostar og þess vegna eru meiri líkur á því að óæskilegar bakteríur eins og Listería nái að vaxa.  (Heimild: http://www.foodstandards.gov.uk). Þetta er gott að hafa í huga á ferðalögum erlendis.

Ég renndi í gegn um svör okkar um osta og gat ekki fundið þetta ósamræmi sem þú nefnir. Getur þú bent mér nákvæmlega á þessi svör sem þú ert að tala um.

Kær kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
29. apríl 2008.