Spurt og svarað

30. janúar 2007

Óþægindi á meðgöngu

Sælar, og takk fyrir góðan upplýsingavef.

Mig langaði að fá upplýsingar hjá ykkur.  Ég er komin 15. vikur á leið og er 24 ára gömul. Eftir að ég varð ólétt þá hef ég verið með stanslausar áhyggjur af öllu í sambandi við meðgönguna - það er alveg óhætt að kalla mig móðursjúka!  Ég er með áhyggjur af fósturláti og öllum tegundum af sjúkdómum!  Þannig að ég hef ekki verið upp á mitt besta, en ég hvílist nóg og borða mikið af hollum mat.  Ég fæ oft svima og hausverk og þá held ég að það sé meðgöngueitrun.  Ég hef fitnað smá núna og það er farið að sjást pínu á mér. Ég fæ oft verki í mjaðmirnar en líka að framan eða þar sem eggjastokkarnir eru og er ég alltaf mjög hörð þar viðkomu.  Ég fæ líka stingi í leggöngin og finnst þetta allt mjög skrítið. Ef ég er búin að sitja í 30 mín og stend upp þá fæ ég mikla og sára verki þarna að framan og allt er grjót hart við eggjastokkana og þar, á maður að vera með verki þar?  Ætti ég að hafa einhverjar áhyggjur?  Ég er með tíð þavglát og er oft með seyðing í blöðrunni. Hef skilað inn þavgprufu hjá ljósunni minni en ekkert fannst, útferðin hefur aukist og hef ég ekkert verið með neina verki eða neitt en núna er ég farin að finna fyrir sviða - getur verið að ég hafi verið með sveppasýkingu í allan þennan tíma og ekki verið með nein einkenni? Er það hættulegt? Og er hægt að vera með þavgsýkingu án þess að það finnist í þvagprufu?

Kveðja, Hin áhyggjufulla, verðandi móðir.


Komdu sæl.

Leiðinlegt að heyra að þú sért ekki uppá þitt besta.  Svona hugsanir eru algengar á meðgöngu en þú ættir að reyna að vera meðvituð um það þegar þú byrjar að hugsa á þessum nótum og skipta þeim út fyrir jákvæðar hugsanir til barnsins og þín.  Þá gengur allt betur.  Svimi og hausverkur getur tengst meðgöngunni og stafar af auknu blóðflæði um líkamann og æðaútvíkkun sem verður eðlilega á meðgöngu.  Meðgöngueitrun kemur ekki fram svona snemma á meðgöngu.  Þú segir mér ekki hvort þú ert að ganga með þitt fyrsta barn en ef svo er þá finnst mér frekar snemmt að vera farin að fá verki í grindina eða að framan eins og þú segir.  Það er þó hugsanlegt sérstaklega ef þú hefur haft einhver stoðkerfisvandamál fyrir meðgöngu.  Verkir yfir eggjastokkum, seiðingur í blöðru og stingir í leggöngum ættir þú að tala um við ljósmóðurina þína.  Þetta getur verið eðlileg afleiðing stækkandi legs en þetta getur líka bent til sýkingar, annaðhvort í þvagi eða í leggöngum. Sýkingar geta verið nánast einkennalausar á meðgöngu en það er samt ólíklegt að þú sért með sveppasýkingu og hafir ekkert fundið fyrir henni.  Aukin útferð er eðlileg og tíð þvaglát sömuleiðis.  Það myndi sjást í þartilgerðri þvagprufu (ekki þegar þú stixar þvagið sjálf í mæðraskoðun) hvort þú ert með þvagfærasýkingu. 

Ég ráðlegg þér eindregið að panta aukatíma hjá ljósmóðurinni þinni og ræða þessi mál við hana.  Við getum því miður ekki greint sjúkdóma eða vandamál gegnum tölvu heldur aðeins gefið ráðleggingar og upplýsingar.

Gangi þér vel

Rannveig B. Ragnarsdóttir,
hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir.
30.01.2007.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.