Aukin glær útferð seint á meðgöngu

08.08.2017

Góðan dag og takk fyrir að halda úti svona flottri og fróðlegri síðu. Pæling mín er að síðustu tvær vikur hefur útferðin verið að aukast og heldur meiri nú þessa dagana en áður. Útferðin er glær stundum smá gulur keimur í henni en engin lykt virðist vera af þessu. Ég þarf að skipta um nærbuxur 2-3x á dag út af þessu. Ég er gengin 38vikur og 3 daga. Getur þetta verið legvatn? Hvernig veit ég það? Getur legvatn lekið án þess að slímtappinn sé farinn? Ég man ekki eftir svona útferð á síðustu meðgöngu. Bestu þakkir fyrir!

Heil og sæl, það er eðlilegt að sé aukin útferð undir lok meðgöngu og ef hún er ekki illa lyktandi er ekki ástæða til að hafa áhyggjur. Það er frekar ólíklegt að þetta sé legvatn, ef að kemur gusa þegar þú stendur upp, hóstar eða rembist þá er það ef til vill möguleiki. Legvatni fylgir ákveðin lykt. Það er einfalt mál að ræða við ljósmóðurina þína og fá úr því skorið hvort mögulega geti verið um legvatn að ræða. Gangi þér vel.