Óþægindi eftir samfarir

09.06.2009

Mig langaði til að senda hérna inn fyrirspurn, ég er ekki alveg viss hvort þetta tengist beint meðgöngu en þetta er allavega eitthvað sem hefur aldrei háð mér áður.  Þannig er að ég verð alltaf svo rosalega aum að neðan eftir kynlíf. Þetta er alveg svakalegur þrýstingur niður og eymsli og svo verða skapabarmarnir svolítið bólgnir. Þetta er svo sárt að ég get varla staðið né gengið það sem eftir er dagsins. Ég finn samt ekkert fyrir óþægindum á meðan á samförum stendur, þetta byrjar bara stuttu eftir. Ég vil taka það fram að við stundum nú alls ekkert harkalegt kynlíf, erum búin að prófa að nota vel af sleipiefni, og jafnvel þótt samfarir standa ekki lengur en 1 mínútu þá verð ég svona svakalega aum á eftir.Hvernig stendur á þessu? Ég finn annars engin óþægindi þarna, engan kláða eða aukna útferð og þetta gerist bara eftir kynlíf. Ég er gengin 27 vikur og þetta er búið að vera að ágerast síðustu 2 mánuðina. Þetta er orðið ansi hvimleitt því þótt eitthvað sé í ólagi þarna niðri þá er kynlífslöngunin sko í topplagi!

Takk fyrir og með von um svör!


Góðan dag.

Það getur verið að um æðahnúta sé að ræða í leggöngunum og skapabörmunum sem þú finnur ekki fyrir nema eftir samfarir.  Það tengist meðgöngu og gengur til baka eftir fæðinguna.

Kveðja

Rannveig B. Ragnarsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur.
9. júní 2009.