Brjóstagjöf

11.08.2017

Sælar og takk fyrir flottan vef. Síðsta brjóstagjöf hjá mér gekk einstaklega illa og var mjög kvalafull. Ég var með mikil blæðandi sár, blöðrur og mikla verki. Ég eyddi mörgum seðlum í krem og hluti sem áttu að hjálpa til og fór til ráðgjafa, talaði við ljósmæður og önnur þeirra var ekki hjálpleg og spurði mig hvað ég væri gömul og þegar ég sagði henni það þá sagði hún mér að hætta að haga mér eins og ég væri 17 ára og harka af mér. Þetta var orðið þannig að ég grét við tilhugsunina að setja barnið mitt á brjóstið og í lokin gat ég ekki hugsað mér að halda á henni til að gefa henni svo ég hætti og þá var það besta sem ég gat gert fyrir mig og barnið mitt og pelinn bjargaði geðheilsunni minni. En ég væri til í að reyna aftur næst en er ansi hrædd því þetta situr mjög fast í mér :( Mig langar að vita hvort það er eitthvað sem ég get gert til að fyrirbyggja sár, blöðrur ? Og eins þar sem geirvörtunar á mér eru frekar hátt uppi hvort það geti haft áhrif á sogið ? Og væri betra að nota mexikóhattin strax frá byrjun ? Og get ég beðið ljósmóður á fæðingardeildinni að hjálpa mér og kenna þetta betur ? Takk og von um góð svör

Heil og sæl, mikið er leiðinlegt að heyra hvað þú áttir slæma reynslu síðast en það er gott að þú skulir treysta þér í að reyna aftur við brjóstið. Nú getur þú undirbúið þig á þann hátt að þú getur byrjað á að ræða málin við ljósmóðurina þína í meðgönguverndinni og þið getið farið í sameiningu yfir þau mál sem þér fannst erfiðust síðast. Svo mæli ég með því að þú biðjir um ljósmóður í heimaþjónustu sem er brjóstagjafaráðgjafi (þær eru nokkrar) ef þess er nokkur kostur. Og að lokum þá er það skylda ljósmæðranna á fæðingadeildinni að hjálpa þér og styðja þig við brjóstagjöfina svo þú skalt alls ekki vera feimin að biðja um hjálp og segja frá því hvernig þetta gekk allt saman síðast. Gangi þér vel.