Páfagaukar

31.01.2009

Langaði að athuga með páfagauka, þar sem við eigum einn og þeir eru taldir vera miklir ofnæmisvaldar. Þurfum við að láta hann fara ? Er komin 8 vikur á leið og vil ekki taka neina áhættu með það. Hef heyrt að ef maður á kött að þá eigi maður helst ekki að vera með svoleiðis á heimilinu eða þá allavegna ekki koma nálægt kattasandinum.

Kveðja, Embla.


Sæl og blessuð!

Við leituðum til Helgu Finnsdóttur, dýralæknis sem sendi okkur eftirfarandi svar:


„Hafi umtalaður heimilispáfagauk ekki valdið ofnæmi hingað til, er harla ótrúlegt að hann geri það úr þessu og því tæpast nokkur ástæða til að láta hann fara. Frekar ætti að hlakka til þess að geta kennt barninu að þykja vænt um gauksa! 

Til er sjúkdómur í fuglum sem kallast á íslenzku  páfagaukaveiki (Psittacosis/avian chlamydiosis) en sjúkdómurinn orsakast af sýklinum Chlamydophila psittaci. Þessi sjúkdómur getur borizt í fólk úr fuglum og veldur þá lungnabólgu. Smit er sennilega algengast hjá þeim sem vinna innan um dýr, s.s. hjá dýralæknum og starfsfólki í gæludýraverzlunum og/eða dýragörðum. Það er afar ósennilegt að venjulegur heimilispáfagaukur sé smitberi, enda tel ég að páfagaukaveiki sé mjög fátíð hér á landi. Upplýsingar um tíðni sjúkdómsins hér á landi er sennilega bezt að  fá hjá Landlæknisembættinu.  

Varðandi gæludýr og meðgöngu er alltaf skynsamlegast að viðhafa fyllsta hreinlæti!“

Við þökkum Helgu fyrir svarið og vonum að það gagnist vel.

Kær kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
31. janúar 2009.