Spurt og svarað

16. september 2017

Val á ljósmóður

Góðan daginn og takk fyrir frábæra síðu! Ég hef hinnsvegar verið að velta því fyrir mér, hvort maður geti fengið ljósmóður á landspítalanum eða eitthvað í þá áttina? Ég er komin rúmlega 4 mánuði og er ólétt í fyrsta sinn. Ég var hjá ljósmóður fyrir norðan vegna þess að ég var stödd þar í vinnu og var svo að hitta aðra ljósmóður sem er á minni heilsugæslu í fyrsta sinn um daginn (fyrir sunnan). Þá fékk ég þær upplýsingar að hún myndi ekki verið stödd í fæðingunni vegna þess að hún er ekki starfandi hjá spítölunum og sagði að þannig væri það hjá ljósmæðrum á heilsugæslum. Mér finnst það svo leiðinleg tilhugsun að vera með manneskju sem maður er farin að treysta og þekkja og öfugt, en svo er einhver ókunnug að taka á móti. Ég veit ekki alveg hvernig ég á að snúa mér því ég veit ekki hvernig þetta virkar, enda fyrsta óléttan. Fyrirfram þakkir!!

Heil og sæl, við þessu er ekkert einfalt svar. Fyrir þær konur sem vilja þekkja sína ljósmóður er best að velja heimafæðingu eða fæðingu á fæðingastofu Bjarkarinnar eða öðrum ljósmæðrareknum einingum. Þú hefur þennan valkost ef þú ert hraust og meðgangan er eðlileg. Ef þú uppfyllir ekki skilyrði fyrir heimafæðingu/fæðingastofu eða getur ekki hugsað þér heimafæðingu þá er frekar ólíklegt að þú þekkir þá ljósmóður sem mun taka á móti hjá þér. Þó þú værir í meðgönguvernd á LSH þá vinna ekki sömu ljósmæðurnar í fæðingunum og í meðgönguvernd svo að það eykur ekki líkur á að þekkja ljósmóðurina þína. Vona að þetta skýri málið eitthvað. Gangi þér vel. 

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.