Illt í legi, 2 mánuðir síðan ég átti

30.09.2017

Sælar, þessi vefur hefur komið að einstaklega góðum notum og er ég þakklát ykkur fyrir það, ég eignaðist stelpu fyrir 2 mánuðum en er ennþá fá vonda samdráttarverki í legið. Þeir koma vanalega eftir að ég hef hreyft mig, stundað kynlíf eða borðað.. ég fór til kvennsjúkdómalæknis f. 2 vikum og hann sagði að þetta ætti að jafna sig sem það hefur ekki gert en þessir verkir minna helst á hríðir. Hvað getur þetta verið? kveðja

Heil og sæl, það er erfitt að segja til um hvað þetta getur verið án þess að skoða þig, sérstaklega þar sem kvensjúkdómalæknir fann ekki neitt sérstakt. Það sem hvarflar að okkur hér án þess að hafa skoðað þig er hvort það sé möguleiki á að þú sért með hægðatregðu. Stundum lýsa þeir verkir sér sem krampi neðarlega í kvið og koma oft eftir hreyfingu og eftir mat. Ef þú ert viss um að það geti alls ekki verið mundi ég ráðleggja þér að fara aftur til læknis og fá betri skoðun. Gangi þér vel.