Gangsetning

05.10.2017

Hæ Ég á bókaða gangsetningu 12 október ( þá komin 38+5) og er búin að vera velta ýmsu fyrir mér. Þetta er fyrsta barn og er með slæma vefjagigt og meðgöngusykursyki Er gangsett fæðing mun verri en venjuleg? Og gengur hún hægari fyrir sér? Ljósmóðir sagði að það gæti tekið 3-4 daga eftir fyrstu töflurnar þangað til hún kemur í heiminn, er það satt? Ég verð hugsanlega inna spítalanum þangað til hún kemur og ekkert send heim svo hægt sé að fylgjast með sykursykinni. Er bað í öllum herbergjum á Landspítalanum eða þarf maður að óska eftir þannig herbergi? Kveðja ein sem er orðin stressuð yfir öllu

Heil og sæl, hvort gangsetning sé verri en að fara af stað sjálf er svolítið afstætt. Þegar þú ferð af stað á þínum eigin hormónum þá byrja hríðarnar oftast vægar og svo verður smá stígandi í hríðum og þær harðna smám saman og styttist á milli þeirra. Líkami þinn hefur því tækifæri til að aðlagast. Við gangsetningu þá er þetta oft harkalegra. Þú finnur strax meira fyrir hríðum og hugsanlega er styttra á milli þeirra. En það ber að hafa í huga að engar tvær fæðingar eru eins og heldur engar tvær gangsetningar. ÞAð er mjög misjafnt hve langan tíma gangsetningar taka en það ber líka að hafa í huga að fæðing fyrsta barns tekur líka oft langan tíma. Ég veit ekki hvort bað er á öllum herbergjum LSH en það er sjálfsagt fyrir þig að óska eftir því. Ég ráðlegg þér að fara í gangsetninguna með opnum huga og þolinmæði að vopni. Allt endar þetta með barni fyrr eða síðar. Gangi þér allt í haginn.