neikvætt þungunarpróf, blæðing en gruna samt þungun.

16.10.2017

Sælar og takk fyrir æðislegann vef. Mig langar að spyrja ykkur. Ég átti að byrja á blæðingum 12.október þar sem ég byrja alltaf 12. hvers mánaðar. Stundum fyrr. Ég var búin að vera með seyðing í legi í nokkra daga en ekki beint túrverki. Í dag 16. október kom fölbleikt blóð í pappírinn en alltaf þegar ég byrja þá kemur mjög mikið blóð og í WC, núna kom bara fölbleikt í pappírinn og ekkert í brókina. Seinna í dag varð blóðið aðeins dekkra og örlítið meira en ekki í líkindum við hvernig ég er alltaf. Ég tók þungunarpróf eftir vinnu í dag en það kom neikvætt. Ég er annars með flest einkenni óléttu. Ég er mjög þreytt, viðkvæm og stutt í grát, óglatt þó ekki farin að æla. Mér finnst þessi fölbleika 'útferð' eða blóð svo einkennilegt þar sem það er alls ekki vaninn. Tók ég prófið of snemma? Það er kannski réttast að það taka það fram að ég er ekki á neinum getnaðarvörnum.

Heil og sæl, ég ráðlegg þér að bíða róleg og sjá hverju fram vindur. Ef engar eðlilegar blæðingar gera vart við sig ráðlegg ég þér að endurtaka þungunarpróf eftir viku 10 daga. Gangi þér vel.