Spurt og svarað

19. október 2017

Að bjóða vatn

Sælar ljósmæður og takk fyrir þennan ómissandi vef! Strákurinn minn er rétt rúmlega fjögurra mánaða og nýhættur á brjósti. Hann var farinn að fá ábót með brjóstagjöfinni um þriggja mánaða og pelinn tók svo hægt og rólega við og nú fær hann eingöngu þurrmjólk. En þannig er að hann er að vakna oft upp á nóttunni og fær pela a.m.k. tvisvar eftir að hann fera að sofa fyrir nóttina. Ég var að velta því fyrir mér hvort það væri ekki óþarfi og hvort mér væri óhætt að bjóða honum smá vatn bara í annað hvort skiptið? Og ef svo... hvernig er þá best að byrja að bjóða vatn? Peli? Kanna? Soðið eða ósoðið vatn? Hvaða hitastig er best? Eða er kannski bara eðlilegt að fjögurra mánaða sé að vakna svona mikið og þurfi að drekka oft og láta sinna sér mikið á nóttunni? Svo er eitt annað sem ég er að velta fyrir mér. Hann nuddar mikið á sér andlitið, oft þegar hann er þreyttur og pirraður. Ég veit að börn gera það gjarnan þegar þau eru þreytt en ég velti því fyrir mér hvort þetta geti verið í tengslum við tanntöku eða hreinlega eitthvað afnæmistengt. Mér finnst hann stundum nudda nefið á sér heldur harkalega bæði að nóttu og degi. Satt best að segja finnst mér svo mikið til af upplýsingum og skoðunum að ég er að verða ansi ringluð og langar hreinlega að hlusta aðeins betur á mitt eigið innsæi þó ég sé með fyrsta barn. Bestu kveðjur

Heil og sæl, það er mjög algengt að börn sem hafa alla jafna sofið vel fari að vakna meira um 4 mánaða aldurinn, sumir segja að það sé liður í þroska þeirra. Ef hann hefur dafnað vel og er orðinn 6 kíló og hraustur þá á hann ekki að þurfa að drekka yfir nóttina. Ég ráðlegg þér að gefa honum bara snuð, breiða ofan á hann og kenna honum að sofa áfram og að lágmarksþjónusta sé á næturnar. Ekki fara að gefa honum vatn og venja hann á að fá eitthvað þegar hann vaknar. Hann þarf að læra að sofa í einum dúr en ef hann fær einhverja umbun þegar hann vaknar t.d. eitthvað að drekka þá heldur hann áfram að vakna. Varðandi að nudda á sér andlitið þá er það frekar algengt að börn geri það og ef hann gerir þetta mest þegar hann er þreyttur þá bendir það  ekki til ofnæmis. Þú skalt endilega hlusta vel á eigið innsæi - eftir allt þá þekkir þú barnið þitt best. Gangi ykkur vel. 

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.