Parkódín

12.03.2011

Góðan daginn!

Ég er komin 13 vikur á leið og er að spá í áhrif Parkódíns á fóstur. Fyrir 6 mánuðum var skrifað upp á Parkódín fyrir mig vegna verkja í baki. Ég hef tekið það mjög sparlega og oft bara reynt að komast af með ½ töflu í einu þar sem ég veit að þetta getur verið ávanabindandi. Ég er aðeins búin með 1½ spjald á nokkrum mánuðum. Nú langar mig til að vita hvort mér sé óhætt að taka ½ töflu af og til vegna verkja eða hvort þetta sé alveg bannað.

Takk fyrir góðan og fræðandi vef :)


Sæl og blessuð!

Það er talið óhætt að nota Parkódín af og til á meðgöngu en þú ættir að gera það í samráði við lækni. Ein tafla af Parkódín inniheldur 500 mg Parasetamol og 10 mg Kódein og venjulegur skammtur fyrir fullorðna er 1-2 töflur. Ef þú þarft að taka inn verkjalyf á annað borð þá ættir þú að taka inn fullan skammt þ.e. 1-2 Parkódín eða 1 Parkódín og 1 500 mg. Panodil/Paratabs saman því ½ Parkódín gerir ekki mikið gagn og kannski gæti verið betra fyrir þig að taka frekar 1-2 Panodil/Paratabs frekar en ½ Parkódín.

Kær kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
12. mars 2011.