Spurt og svarað

02. apríl 2007

Parvovirus B19 - ?Fimmta veikin?

Sæl verið þið!

Fyrst vil ég byrja að þakka fyrir frábæran vef, mikið rosalega hefur hann hjálpað mér mikið í gegnum meðgönguna mína.

Þannig er það að ég er búsett í Danmerku og var ég að heyra að konur hér hafi verðið að forðast vírus sem gengur sérstaklega á milli barna sem eru á leikskóla. Hann heitir Parvovirus eða oft kallaður "lussingasyge". Ég er búin að leita á netinu en get ekki ímyndað mér um hvað sjúkdóm er verið að ræða.

Með fyrir framm þökk frá DK.

 


 

Sæl og blessuð!

Parvovirus B19 hefur verið kallaður „Fimmta veikin“. Þetta er vírussýking sem smitast á milli manna en það er einnig til Parvovirus í hundum og köttum en hann smitast ekki til manna. Talið er að um helmingur fullorðinna hafi smitast af veikinni í barnæsku og fyrir þær er engin hætta á ferðum. Ef þunguð kona smitast er líklegast að hún finni aðeins fyrir vægum einkennum og að það valdi engum skaða fyrir barnið. Það er þó möguleiki að sýkingin geti valdið alvarlegu blóðleysi hjá ófæddu barni þannig að fósturlát verði. Þetta gerist hjá innan við 5% þungaðra kvenna sem sýkjast af veirunni og gerist frekar á fyrsta helmingi meðgöngu. Það er ekkert sem bendir til þess að Pavrovirus valdi fósturgöllum eða þroskaskerðingu.

Það er auðvitað æskilegt að vera ekki innan um þá sem eru smitaðir en það getur þó verið erfitt að forðast smit því manneskja getur verið smitandi áður en útbrot koma fram. Góður handþvottur er alltaf gagnlegur til að forðast smit almennt og það gildir einnig hér. 

Ef barnshafandi konu grunar að hún hafi smitast á meðgöngu ætti hún að hafa samband við sína ljósmóður eða heimilislækni. Það er mögulegt að láta taka blóðprufu til athuga með mótefni í blóði því þannig er hægt að komast að því hvort maður hefur fengið þessa sýkingu einhvern tíma á ævinni eða hvort um nýtt smit sé að ræða. Ef um nýtt smit er að ræða þarf að fylgjast vel með fóstrinu næstu vikur.

 

Kær kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
2. apríl 2007.

Heimild: Centers for Disease Control and Prevention

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.