Líklega fósturlát en jákvætt óléttupróf

12.11.2017

Góðan dag, Ég held ég hafi verið að missa fóstur í gær en er samt ekki 100% viss, í gær var ég komim 5v + 1d miðað við fyrsta dag síðustu blæðinga. Ég tók óléttupróf þegar ég var komin 4v+2d og fékk jákvætt en frekar daufa línu. Daginn eftir byrjaði ég svo að fá brúna útferð og var með þannig í þrjá daga, þetta var samt ekki mikið. Hefði ekki fyllt hálfan álfabikar samtals. Ég hélt kannski að óléttuprófið hefði verið vitlaust og tók annað þegar ég var komin 4v + 6d en þá kom líka jákvætt próf, skýr lína. Þann dag blæddi ekkert. Næstu tvo daga byrjaði hins vegar að blæða aftur og þá ýmist rautt eða brúnt blóð. Samt ekki mikið, ekki þannig að ég þyrfti að hafa bindi en kom alltaf í pappírinn. Seinni daginn um kvöldið fór ég svo að fá verki neðarlega í magann og í mjóbakið ekki mjög sára en fann samt vel fyrir þeim þannig að þetta var óþægilegt og held ég hljóti að hafa verið að missa. Í dag, daginn efir þessa verki tók ég enn einu sinni óléttupróf, sem var jákvætt og línan skýrari en aldrei fyrr. Það kemur enn smá brúnt blóð en rosalega lítið, bara rétt sést í pappírnum og engir verkir. Mín spurning er því, hversu lengi fær maður jákvætt óléttu próf eftir fósturlát þegar maður er kominn svona stutt? Ætti ekkert að blæða meira en þetta ef um fósturlát er að ræða? Tek það fram að ég er ekki að reyna að gera mér einhverjar vonir. Ég tek það fram að ætla að fara til kvennsjúkdómalæknis og láta skoða mig en fæ ekki tíma strax og biðin er svo erfið.

Heil og sæl, það er gott að þú eigir tíma hjá lækninum þínum þar sem það er alls  ekki hægt að segja með vissu miðað við þessa lýsingu hvort þú hafir misst eða ekki. Ég er því hrædd um að þú verðir að sýna þolinmæði og sjá hvað læknirinn segir þó að biðin sé erfið. Gangi þér allt í haginn.