Pínu blóð

28.04.2015

Sælar, og takk fyrir góða og nauðsynlega síðu! Ég er komin rúmar 12 vikur og hef núna tvisvar lent í því að fá blóð í pappírinn, fyrst fyrir viku síðan og svo í gær. Í bæði skiptin var þetta ferskt blóð, eins og úr sári, og pínulítið magn (kom bara einu sinni í hvort sinn). Ég sá ekki blóð í hægðum og fann ekki fyrir því í leggöngunum. Ég er búin að fara í 12 vikna sónar og allt leit vel út, og mæðraverndin sagði að lítið væri hægt að gera í blæðingum svona snemma á meðgöngunni. Ég er búin að vera með þó nokkuð harðlífi og mjög viðkvæm í slímhúðinni. Mínar spurningar eru því þessar, hvaðan gæti þetta blóð komið, get ég gert eitthvað til að koma í veg fyrir þetta og þarf ég að hafa áhyggjur?

 

Heil og sæl, nei þú getur ekki gert neitt til að koma í veg fyrir þetta og það er eins og þær segja í mæðraverndinni ekkert hægt að gera í þessu. Þetta blóð er væntanlega  frá slímhúð, hún er viðkvæm og þarf lítið kannski ekki nema smásár sem ekki sést með berum augum einu sinni til að það komi smá blóð. Gangi þér vel.

 
Bestu kveðjur
Áslaug V.
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur
28. apríl 2015