Pirringur í fótum

07.12.2006

Sælar,

Vitið þið ekki um eitthvað slakandi vöðvakrem sem er óhætt að nota á meðgöngu þ.e. sem er hægt að bera á fæturna til að lina verki og koma í veg fyrir fótapirring yfir nóttina? Er komin 33 vikur og get ekki lengur sofið fyrir verkjum í fótum.Komdu sæl.

Það getur verið gott að nota kælandi krem eða gel og bera á fæturna fyrir svefninn, það slær oft á þennan pirring.  Það má svo bera á aftur um nóttina ef þú vaknar.  Svona krem/gel getur þú fengið í flestum verslunum sem selja krem, apótekum eða heilsubúðum.  Láttu bara koma sýrt fram að þú sért ófrísk og fáðu ráðleggingar um hvað reynist best.  Það er hugsanlegt að kremin virki misvel á þig þannig að þú þarft kannski að prufa þig aðeins áfram.  Það sem virkar vel á eina virkar kannski ekki eins vel á aðra.

Ef þú ert með verki í fótunum þarftu kannski að fara aðeins að slaka á og passa að verða ekki of þreytt yfir daginn.  Settu fæturna upp á stól reglulega yfir daginn og hvíldu þig eins og þú getur.  Verkir og pirringur geta líka komið ef þú ert með bjúg á fótunum og þá geta stuðningssokkar og að hafa hátt undir fótum hjálpað.  Hafðu samt í huga að þegar þú ert að byrja að nota stuðningssokka skaltu bara vera í þeim stutt í einu og smálengja svo tímann því fótapirringur getur komið þegar þú ferð úr sokkunum.  Þetta lagast svo þegar þú venst því að vera í svona stífum sokkum.  Til lengri tíma þá hjálpar þetta.

Gangi þér vel

yfirfarið 29.10.2015