Spurt og svarað

28. apríl 2015

postafen

Góðan dag, ég ætla að forvitnast aðeins, ég er komin 10 vikur á leið og er búin að vera með nokkuð slæma morgunógleði, fór til heimilislæknis um daginn og spurði hann hvort það væru einhverjar töflur sem geta spornað við ógleði þannig ég sé vinnufær og hann segir mér að fara í apótek og fá Postafen. Þegar ég er komin heim fer ég að skoða pakkninguna á töflunum og þar stendur ´´Varúð: getur haft slævandi áhrif og því skal gæta varúðar við akstur bifreiða og stjórnunar véla. Slævandi áhrif geta aukist við áfengisneyslu, Þungaðar konur eða konur með barn á brjósti eiga ekki að nota lyfið nema að læknisráði. Inniheldur laktósa - sjá frekari upplýsingar í fylgiseðli.´´ Er eðlilegt að læknir mæli með þessu fyrir morgunógleði? Tek þessu sem svo að óléttar konur eigi ekki að nota þetta nema í neyð við bíl eða sjóveiki? og er eitthvað annað sem þið mynduð mæla með í stað þessara tafla?


 Heil og sæl, það er alltaf svolítið snúið með lyf á meðgöngu því að eðli málsins samkvæmt er ekki verið að rannsaka ófrískar konur og virkni lyfja á ófædd börn, postafen er eldgamalt lyf og það er einmitt eitt af þessum lyfjum sem almennt er talið að hafi engin skaðleg áhrif á fóstur. Engin tilfelli eru þekkt þar sem fósturskaði hefur verið rakin til Postafens. Á vef Lyfjastofnunar koma fram eftirfarandi upplýsingar um Postafen (meklózín).
Í æxlunarrannsóknum á rottum hafa komið fram tilvik um klofinn góm við 25 – 50-falda skammta ætlaða mönnum. Faraldsfræðilegar rannsóknir á þunguðum konum benda hins vegar ekki til þess að meklózín auki hættu á vanskapnaði þegar það er notað á meðgöngu. Þrátt fyrir niðurstöður úr dýratilraunum virðist sem hætta fyrir mannsfóstrið sé mjög lítil. Eigi að síður má því aðeins gefa þunguðum konum meklózín að læknir hafi metið hugsanlegan ávinning meiri en áhættu.“
Flestar konur fara að skána af ógleðinni og sumar lagast alveg við 12 vikur. Ég ráðlegg þér að ræða þetta við þína ljósmóður í mæðravernd.  Gangi þér vel.  
 
Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.