Protopic smyrsli á meðgöngu

19.10.2007

Sælar!

Ég komst nýlega að því að ég er ólétt og er ég komin aðeins yfir 5 vikur á leið. Alveg síðan ég var barn hef ég verið með exem. Ég hef verið að nota Protopic 0,1% í kringum augum á mér og byrja að fá mikið exem ef ég hef ekki notað það í nokkra daga. Í fylgiseðlinum stendur að maður ætti að ráðfæra sig við lækni um hvort sé í lagi að nota þetta smyrsl á meðan á meðgöngu stendur. Ég mundi spyrja húðsjúkdóma læknirinn minn ráða en hann tengist fjölskyldunni og ég vil helst að bara þeir nánustu viti af þessu vegna þess hve stutt ég er komin á leið. Ef þið getið ráðlagt mér um hvað ég ætti að gera væri ég mjög þakklát.

Kær kveðja.


Sæl og blessuð!

Samkvæmt upplýsingum í Sérlyfjaskránni þá ætti ekki að nota Protopic smyrsli á meðgöngu nema brýna nauðsyn beri til. Nú veit ég ekki hversu brýnt það er fyrir þig að nota þetta smyrsli enda ættir þú að ráðfæra þig við lækni um þetta. Ef þú vilt ekki leita til húðsjúkdómalæknisins þíns þá getur þú leitað til heimilislæknisins þíns.

Kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
19. október 2007.