Spurt og svarað

12. febrúar 2007

Að hætta að reykja á meðgöngu

Góðan dag.

Ég er hérna aðeins að pæla um reykingar... ég þori ekki að spyrja ljósuna
mína um þetta af því að ég er búin að segjast vera reyklaus síðan í
október :S Ég er sem sagt komin 29 vikur og er að gera tilraun númer
649585800380934 til að hætta að reykja, en ég er búin að heyra að ég gæti
misst fóstrið og það sé betra að halda bara áfram og hætta þegar ég
fæði... er það satt?

Og önnur spurning..hvað er ég búin að skaða barnið mikið? er ég hætt of
seint? Hvernig líður barninu þegar ég reyki? Alltaf þegar ég hef fengið
mér sígó þá sparkar barnið neflilega svo mikið að mér finnst ég vera að
kæfa það.

Ég skammast mín svo fyrir þetta, og ég vil svo mikið hætta. Ég er líka
farin að ljúga að öllum í lífinu mínu um að ég sé löngu hætt. Ég veit að
mér tekst þetta núna!

Ein með samviskubitSæl og blessuð!

Mig langar að byrja á því að óska þér til hamingju með að vera nú ákveðin í að hætta að reykja, það er frábært hjá þér!!
Það er EKKI rétt að að það sé betra að halda áfram að reykja og hætta bara þegar barnið fæðist. Þeimun færri sígarettur sem þú reykir á meðgöngunni þeimun betra fyrir barnið.
Ég get því miður ekki upplýst þig um hvort þú sért búin að skaða barnið þitt eða hve mikið, en ég get upplýst þig um að þeimun fyrr sem þú hættir að reykja þeimun minni líkur eru á því að reykingarnar hafi slæm áhrif á meðgönguna og barnið þitt.
Ef þér finnst erfitt að tala um þetta við ljósmóðurina þína þá vil ég hvetja þig að tala um þetta við einhvern annan sem getur veitt þér stuðning, það eru mun meiri líkur á því að þér takist þetta ef þú hefur góðan stuðning til að fara í gegnum þetta.
Á miðstöð mæðraverndar er hægt að fá stuðning, þar er ljósmóðir sem heitir Karítas, hún tekur konur sem eru að hætta að reykja á meðgöngu í viðtöl, þú getur pantað tíma í síma 585 1400, þetta er frábær þjónusta og ég hvet þig til að notfæra þér hana.
Einnig er símaráðgjöf fyrir alla sem eru að hætta að reykja ( ekki bara ófrískar konur) í síma 800 6030.Gangi þér ofsalega vel!


Bestu kveðjur

Halla Björg Lárusdóttir
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur
12. febrúar, 2007.


Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.