Spurt og svarað

20. mars 2007

Rautt þvag og rauðrófusafi

Sæl og þakkir fyrir afar gagnlegan vef.

Mig langar til að vita hvort að það sé eðlilegt að þvagið manns verði rautt ef maður drekkur mikinn rauðrófusafa? Ég hef verið að reyna að vinna bug á hægðartregðu sem að hrjáir mig og var bent á að rauðrófusafinn væri losandi og jafnframt öruggur fyrir ófrískar konur. Fann strax að hægðirnar voru rauðleitar en hugsaði að það væri alveg eðlilegt. Núna er þvagið líka orðið rauðleitt.

Annað sem að mig langar að spyrja að í sambandi við hægðartregðuna. Er te sem inniheldur Senna mjög hættulegt á meðgöngu? Las á erlendum vef að ófrískar konur ættu ekki að neyta Senna, en fann ekki út hvort að það væri algerlega bannað eða í lagi í hófi. Ég verð að gera eitthvað, því að ég er búin að vera stopp í alltof langan tíma.

Kveðja, Sunna (gengin u.þ.b. 8 vikur).

 


 

Sæl og blessuð og takk fyrir að leita til okkar!

Það er alveg rétt að rauðrófur og þar með rauðrófusafi getur gefið rauðan lit á hægðir og þvag í u.þ.b. 1-2 sólarhringa eftir að þeirra er neytt.

Senna er ein af þessu jurtum sem getur valdið samdráttum í legi og því er ekki mælt með notkun hennar á meðgöngu. Þegar er ekki vitað hversu mikið eða lítið er óhætt að nota af svona jurtum þá er betra að sleppa því.

Þú getur ef til vill nýtt þér upplýsingar um hægðatregðu hér á síðunni.

Gangi þér vel.

Kær kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
20. mars 2007.


Sjá einnig umfjöllun um Senokot (Senna) í fyrirspurn 22. mars 2007.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.