Spurt og svarað

16. apríl 2007

Að hætta að reykja og fósturlát

Hæ hæ
Ég er með eina furðulega fyrirspurn, þannig er mál með vexti að ég missti fóstur í janúar og það var svokallað dulið fósturlát.  Ég var komin 12 vikur á leið þegar það fattaðist og fóstrið hafði verið dáið í nokkrar vikur.  Mér tókst á þeirri meðgöngu ekki að hætta að reykja fyrr en ég var komin 8 vikur á leið.  Eftir fósturlátið var ég svo vitlaus að byrja aftur að reykja ( vorkenndi sjálfri mér svo agalega mikið).  En nú er ég nýorðin ófrísk aftur og er að rembast við að hætta aftur, er til einhver tenging við að hætta reykningum og fósturlát? Getur fóstrið fengið sjokk og dáið ef maður hættir?  Ég er búinn að vera að hugsa svo mikið um það að það hafði gerst hjá mér þarna í janúar og er mjög hrædd um að það gerist aftur.  Þetta verður bara að takast hjá mér núna og ég er að vakna upp með martraðir út af þessu :(

Bestu kveðjur.


Komdu sæl.

Ég hef aldrei heyrt það að fóstur geti fengið sjokk við það að mamman hættir að reykja.  Vitað er um tengsl milli reykinga og fósturláta, það er að fósturlát eru algengari hjá konum sem reykja en þeim sem reykja ekki og er það vegna þess að blóðrásin er ekki eins góð og þar með súrefnisflutningur og flutningur næringarefna til fósturs þegar mamman reykir.  Barnið og þú græðið því mest á því að þú getir hætt að reykja og því fyrr því betra.

Fósturlát verða oft án þess að nein sérstök ástæða virðist vera fyrir því (sjá nánar hér á síðunni) og þú getur ekki kennt þér um þetta hvort sem þú reyktir eða hættir að reykja.  Þú gerðir jú það sem var barninu og þér fyrir bestu að hætta.  Hættu aftur sem allra fyrst og njóttu þessarar meðgöngu eins og þú getur.

Bestu kveðjur

Rannveig B. Ragnarsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur.
16. apríl 2007.


Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.