Reductil á meðgöngu

13.07.2009

Sæl!

Málið er það að ég er þunguð kominn rétt 5 vikur en ég er búinn að vera á Reductil megrunarpillunum frá því í janúar það stendur á fylgiseðlinum að maður megi ekki vera þunguð á þessu og að það megi ekki vera í þungunarhugleiðingum. En þar sem þetta er slys hjá okkur langar mig að vita hvort þetta sé hættulegt en mig langar til að halda barninu en er þetta eitthvað sem getur skaðað barnið gert það vanskapað eða eitthvað þvíumlíkt? Ég er rosalega stressuð yfir þessu og mig langar svo að fá svör áður en ég geng það langt að það yrði erfitt að binda endi á þetta því það er ekki það sem okkur langar.

Með fyrirfram þökk, frk áhyggjufull.


Sæl og blessuð!

Samkvæmt upplýsingum í Sérlyfjaskránni er ekki nógu mikið vitað um áhrif lyfsins á meðgöngu og brjóstagjöf og því er ekki mælt með notkun þess á meðgöngu eða við brjóstagjöf. Þar segir enn fremur að konur sem verði þungaðar meðan á meðferð stendur ættu að láta lækninn vita.

Á nýsjálenskri lyfjasíðu fann ég þær upplýsingar að við dýrarannsóknir á lyfinu hafi ekki komið í ljós fósturskemmandi áhrif en þar er einnig tekið fram að ekki sé búið að sýna fram á öryggi þess að þungaðar konur noti lyfið.

Ég ráðlegg þér að hafa samband við þann lækni sem ávísaði á þig lyfinu og ræða málin.

Vona að allt gangi vel.


Kær kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
13. júlí 2009.