Spurt og svarað

11. desember 2006

Réttindi við flutning milli landa og kláði

Sælar og takk fyrir frábæran vef!
Ég er að vinna sem hjúkrunarfræðingur á Grænlandi og er ófrísk í viku 22.  Ég er 36 ára og fór í fylgjusýnatöku á Íslandi í 12. viku. Allt var eðlilegt í þeirri rannsókn. Nú standa málin þannig að ég er að flytja heim og enda sem einstæð móðir. Áhyggjurnar og spurningarnar hrannast upp hjá mér. Getið þið upplýst mig um hvernig ég færi rétt minn á milli landanna, skrái mig hjá ljósmóður og hvaða rétt hef á ég fæðingarorlofi þegar ég kem til Íslands? Ég hef verið búsett erlendis í mörg ár. Svo er ég farin að finna fyrir voðalegum kláða um allan líkamann og á erfitt með svefn. Engin útbrot, bara kláði og verð dáldið skelkuð við að lesa um obstetisk cholestasis. Getur verið að ég sé að fá þennan sjúkdóm? Hvert á ég að leita þegar ég kem heim?
Vonast eftir svari sem fyrst.
Ein áhyggjufull.


Komdu sæl

Þú getur pantað þér tíma hjá ljósmóður á heilsugæslustöð í hverfinu þar sem þú kemur til  með að búa.  Best er að gera það sem fyrst þar sem það getur verið nokkur bið í að fá tíma.  Hjá ljósmóðurinni þinni getur þú svo fengið allar upplýsingar um áframhaldið.  Því miður eru reglurnar þannig hér að foreldri verður að hafa verið á íslenskum vinnumarkaði í a.m.k. 6 m ánuði til að geta fengið greitt fæðingarorlof frá Tryggingarstofnun Ríkisins en þeir sem ekki hafa rétt á fæðingarorlofi geta sótt um fæðingarstyrk.  Þetta getur þú líka fengið upplýsingar um á www.tr.is

Margar konur finna fyrir kláða á meðgöngu sem oftast byrjar á maganum og getur svo breiðst út.  Hann er oftast verstur á nóttunni og er talinn vera vegna hormónaáhrifa.  Þú getur reynt ráð eins og að fara í kalda sturtu, nota kælikrem eða rakakrem eftir bað, hafa frekar svalt í svefnherberginu og sofa með þunna ábreiðu og nota ekki sterk þvottaefni eða sápur.  Það getur verið að þú þurfir að taka kláðastillandi lyf eins og Tavegyl eða Polaramin eða jafnvel svefnlyf til að geta sofið.  Ég ráðlegg þér að tala um þetta við ljósmóðurina þína, því hugsanlega vill hún fá hjá þér blóðprufu til að útiloka cholestasis.

Gangi þér vel.

Rannveig B. Ragnarsdóttir,
hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir.
11.12.2006.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.