Rhesus varnir á meðgöngu

08.07.2012
Sæl!
Ég er ólétt af mínu öðru barni og er Rhesus neikvæð. Ég á eitt barn fyrir en hef áður misst fóstur. Strákurinn minn er neikvæður líka svo ég þurfti ekki að fá sprautuna eftir fæðingu. En núna var ég í mæðraskoðun (bý í útlöndum) og ljósmóðirin sagði að í viku 24 yrði tekin blóðprufa hjá mér til að athuga blóðflokk fóstursins? En spurning mín er hvort að það sé hægt? Ég hef aldrei heyrt um að hægt sé að athuga blóðflokk fósturs og finn ekkert um það á netinu. Ég hélt að ég þyrfti að fara í nokkrar blóðprufur til að athuga með mótefni. En hún sagði mér að ég færi bara í blóðprufu á viku 24 þar sem þetta yrði athugað og svo ekkert meir. Er það eðlilegt?

Bestu kveðjur, ólétt í útlöndum.Sæl!

Á Íslandi eru rauðkornamótefni hjá Rhesus neikvæðum konum athuguð í upphafi meðgöngu, við 28. og 36. viku. Hérlendis hefur ekki verið farið útí að kanna blóðflokk barns á meðgöngunni en það er hægt að gera og víðsvegar gert. Í blóði móðurinnar er hægt að greina fóstur DNA og greina blóðflokk barnsins út frá því. Aðferðin er dýr og enn í þróun og ekki verið talin þörf á að bæta henni við hérlendis.

Vona að þetta svari spurningu þinni.

Með bestu kveðju,
Signý Dóra Harðardóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
8. júlí 2012