Spurt og svarað

05. maí 2014

Rifbein

Hæ hæ.
Takk fyrir frábæra síðu, skoða hana liggur við á hverjum degi! En ég var að hugsa, getur barnið brotið ritbein í mér? Ég er komin 38v+6d og er með stanslausan verk neðst við vinstra rifbeinið, verkurinn er orðin svo sár að ég get varla hreyft mig. Hvað get ég gert til þess að minnka verkina? Barnið er skorðað og ljósmóðirin sagði að það ætti að hætta þegar barnið er skorðar en það verkirnir hafa ekkert hætt.
Takk enn og aftur fyrir frábæra síðu!Komdu sæl.
Það getur komið fyrir að rifbein brotni hjá ófrískum konum við mjög slæm hóstaköst eða ef barnið sparkar það kröftuglega í þau að þau brotni.
Stundum getur það tekið smá tíma fyrir verkinn að minnka þar sem maður getur verið marinn yfir þessu svæði, sérstaklega ef barnið var mikið að sparka þangað upp og nær jafnvel ennþá að spyrna aðeins í þau. Einnig getur verið ef barnið er sitjandi að komi sársauki undir rifbeinin þar sem kollurinn er svo harður. Ég myndi biðja ljósmóðurina í næstu skoðun um að skoða mjög vel hvort að barnið sé ekki örugglega í höfuðstöðu fyrst að verkirnir eru ekki hættir.
Hægt er að prufa ýmislegt til þess að reyna að lina verkinn. Gott er að vera í fötum sem þrengja ekki að, þegar þú liggur að hafa góðan stuðning frá púðum, þegar þú situr skaltu sitja bein og ekki hanga fram, ekki sitja of lengi, þú skalt standa upp reglulega og teygja þig aðeins. Þú getur prufað heita bakstra eða kalda bakstra, hvort sem þér finnst hjálpa meira. Sund getur hjálpað og teygjuæfingar. Ef það eru miklir verkir getur verið að paracetamól geti einnig hjálpað.
Ég vona að þessar ráðleggingar hjálpi.

 

Viðbót 8. maí 2014: Okkur hefur borist ábending varðandi þessa fyrirspurn varðandi möguleika á meðgöngueitrun. Samkvæmt fyrirspurninni virðist þú hafa rætt við ljósmóðurina þína um þetta og hún væntanlega útilokað að um meðgöngueitrun sé að ræða. Verkur undir hægri rifjaboga getur verið merki um meðgöngueitrun og ætti alltaf að athuga/útiloka hvort um meðgöngueitrun sé að ræða þegar barnshafandi kona finnur verk undir hægri rifjaboga.


Gangi þér vel.
Kveðja,
Súsanna Kristín Knútsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
5. maí 2014.
 

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.