Röndin

25.10.2006

Sælar!

Mig sem manni, langar rosalega að spyrja. Mín elskulega kona ber okkar barn, og er komin frekar langt, allt að gerast í nóvember :)  Það myndast falleg og sæt rönd eftir maga hennar frá brjóstum og niður, engu líkara en kvenmaðurin er samansettur í miðju. Mig langar að vita hvers vegna þessi rönd myndast. Þó ég hati orðið ólétt kona er engu líkara en að hún sé að fitna á fullu. Þá erum við menn oft forvitnir og spyrjum sjaldan, enda skiljum við ekkert í þessu frekar en að þegar við kynntumst þessari dúllu og ástin blómstraði og kynlífið bara var toppur, þá skiljum við þær ekkert þegar þær eru ófrískar. Ekki batnar þetta, orðið ófrískar! Eru þær veikar eða?


Komdu sæll, verðandi faðir!

Breytingar á litarefni húðar eru mjög algengar hjá konum á meðgöngu. Ekki er vitað með vissu hver orsökin er, en  leitt er að því líkum, að aukin hormónaframleiðsla á meðgöngu orsaki þær breytingar. Húðin dökknar oft í andliti, á geirvörtum, vörtubaug, skapabörmum og á spöng. Einnig er mjög algengt að hvíta línan eða „linea alba“, sem liggur eftir miðjum framanverðum kviðvegg, dökkni og breytist í „linea nigra“ eða svörtu röndina. Verður hún oft meira áberandi hjá dökkhærðum konum en ljóshærðum. Liturinn á línunni dofnar oftast eftir fæðingu en hverfur oft ekki alveg. Það er líka rétt til getið hjá þér, að við erum saman sett í miðlínu, bæði þú og ég. Þessi miðlína liggur frá hvirfli að hvirfli bæði að aftan og framan og á fósturmyndunarskeiði næst stundum ekki að loka þessari miðlínu og fram geta komið smíðagallar á okkur. Sem dæmi um það má nefna skarð í vör og/eða góm og klofinn hrygg.

Vona, að þetta svari fyrirspurninni og það er um að gera að spyrja nógu mikið, því þannig eykst oft skilningur okkar á tilverunni en ég skil, að það geti verið erfitt fyrir þig að setja þig í spor dúllunnar þinnar og skilja hana til hlítar, en fullt af ást, umhyggju og tillitssemi hjálpar oft í þeim efnum.

Gangi ykkur vel,

yfirfarið 28.10.2015